Það er 27. desember árið 2004. Í baksýnisspeglinum er heimabærinn okkar Hafnarfjörður, sem við kveðjum næstu þrjú árin, á leið okkar á vit nýrra ævintýra. Eiginmaðurinn á leið í að ljúka námi við Háskólann á Akureyri, ég að fara að kenna í grunnskóla á Akureyri og dætur okkar tvær að byrja í nýjum grunnskóla. Á leiðinni í bílnum flaug margt í gegnum hugann og var eftirvæntingin mikil hjá okkur öllum. Ferðalagið tók átta tíma, það var ekki gott veður þennan dag. Þegar við sáum Akureyri blasti við okkur þvílík fegurð. Þetta var eins og að keyra inn jólakort. Það var langt síðan við höfðum séð svona mikinn snjó. Það tók okkur nokkra daga að koma okkur fyrir. Fljótlega rann gamlárskvöld upp. Okkur hafði verið sagt að það væri erfitt að kynnast Akureyringum. Þarna stóðum við og skutum upp flugeldum með heimamönnum og áður en við vissum af höfðum við eignast vini sem voru nágrannar okkar, sem enn þann dag í dag eru vinir okkar.
Árin þrjú á Akureyri eru nú að verða fjórtán. Síðan við fluttum til Akureyrar hefur margt breyst hjá okkur. Við hjónin eigum nú þrjú börn og fjögur barnabörn og yndislega vini. Það má segja að við höfum lagt okkar að mörkum við að fjölga Akureyringum. Í gegnum störf mín innan menntageirans á Akureyri hef ég kynnst fjölda fólks og fengið tækifæri að sjá það vaxa og dafna í námi og störfum. Í dag vinn ég hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins en hef starfsstöð bæði í Reykjavík og á Akureyri. Við hjónin getum hvergi annars staðar hugsað okkur að vera, hér er allt til alls, öflugar menntastofnanir, stutt í náttúruna, yndislegir vinir, menningarlífið til fyrirmyndar, þjónustan í hámarki, stuttar vegalengdir og tómstunda- og frístundastarfið öflugt.
Það má segja að Háskólann á Akureyri gegni veigamiklu hlutverki í lífi okkar þar sem við höfum bæði lokið námi þaðan og háskólinn var ástæðan fyrir því að fluttum til Akureyrar. Í dag viljum við hvergi annars staðar vera ,,Hér er best að búa”.