Íþróttaiðkun barna og unglinga

Elma Eysteinsdóttir skrifar

Að tilheyra hópi er góð tilfinning, sama á hvaða aldri við erum. Hópar myndast víða, í skólum, við íþróttaiðkun, í tómstundastarfi, á vinnustöðum, í hverfum o.s.frv. Ég held að við getum öll verið sammála um það sem foreldrar að það mikilvægasta fyrir okkur er að börnunum okkar líði vel og að þau hafi góð félagsleg tengsl. Börn eru missterk félagslega og þeim gengur misvel í skóla og því er íþrótta- og tómstundastarf afar mikilvægur þáttur þegar kemur að uppeldi, þroska og félagslegum tengslum. 

Margt í boði

Við búum vel hér á Akureyri og það er mikið framboð, í rauninni er hægt að æfa svo til allar íþróttagreinar hér innan nokkurra kílómetra radíuss. En hafa börnin greiðan aðgang að öllu þessu framboði? Væru meiri líkur á að fleiri unglingar myndu stunda íþróttir á menntaskólaaldri ef þau hefðu fengið tækifæri til að prófa þetta fjölbreytta úrval af íþróttum á sínum fyrstu árum í grunnskóla?

Mikilvægt er að skólinn í samvinnu við íþrótta- og tómstundastarf, standi fyrir öflugu forvarnarstarfi, sem styrkir og eflir unga fólkið okkar til heilbrigðs lífernis.

Leyfum börnunum að prófa

Hjá L-listanum leggjum við áherslu á að börn í 1.-4. bekk fái tækifæri til að prófa fjölbreytt úrval af íþróttum á strafstíma frístundar. Þannig fá þau betri félagslega tengingu og íþróttagrunnur þeirra verður öflugri. Einnig sé ég fyrir mér að þau finni frekar þá íþrótt sem þeim hentar, mögulega einhverja af þeim íþróttum sem eru kannski ekki alltaf í sjónvarpinu. Á þessum árum er mikilvægt að gefa krökkum tækifæri á að finna sig í íþrótta- og félagsstarfinu og þá eru minni líkur á að þau flosni upp úr starfinu þegar þau komast á menntaskólaaldurinn.  

Samvinna

En hvernig er hægt að fara að þessu? Geta íþróttagreinarnar unnið saman og þá með skólunum til þess að gera það sjálfsagðan hlut að krakkar komist í snertingu við og prófi það sem Akureyrarbær hefur upp á að bjóða? Auðvitað hefur ýmislegt verið reynt síðustu ár í þessum efnum, en hér þarf að halda áfram og ná árangri, því heilsa barna okkar er í húfi. Við munum vinna að því að bærinn, íþróttafélög og skólar hjálpist að við að flétta mismunandi íþróttagreinar inn í frístundastarf barna í 1.-4. bekk og gefa þeim þannig tækifæri á að kynnast sem flestum greinum.  

Íþróttir fyrir alla, alla ævi. 

 

Frétt af kaffid.is